August 31, 2006

fólk

Fólk.
Í öllum litum, öllum stærðum og gerðum.
Hvert og eitt með sína eiginleika, kosti og galla.
Þegar við vinnum saman, nýtum hæfileika hvors annars, getur útkoman verið gífurlega öflugur hópur.

Undanfarið hef ég deilt stundum með fullt af fólki. Dagarnir hafa eiginlega verið eitt stórt stefnumót, fundir hér og þar, hópavinna, samræður og heimsóknir. Fólk sem er svo jákvætt, bjartsýnt, orkumikið og gefandi. Ólýsanlega ánægjulegt að kynnast öflugum, skilvirkum hópum og frábæru fólki.
Takk fyrir að auðga líf mitt.

Hamingjuóskir dagsins fær kærastinn, til lukku með áfangann ;o)

August 28, 2006

flutningar

Pakka í kassa fyrir nokkrum mánuðum.
Flytja svo sjálf heimshorna á milli, taka einungis það allranauðsynlegasta með.
Láta bara aðra um að flytja kassana á Íslandi.

Helduru að það sé þjónusta, ha? :o)

-þakklæti til þeirra sem báru alla þessa kassa-

August 25, 2006

tíminn og stúlkan

Háskólastúdentinn að verða smá upptekinn þessa dagana. En það bara fínt að hafa pínku pons of mikið að gera. Hafa smá pressu eins og það getur líka heitið.

  • Einstaklingsverkefni í skólanum. Það er nú bara klassík, alltaf einhver svoleiðis verkefni á dagatalinu.
  • Hópverkefni í skólanum. Líka klassík. Mjög áhugavert viðfangsefni og hópurinn sömuleiðis. Verkefni út af fyrir sig að leiða hópinn.
  • SLP (stúdentaleiðtogaprógramm). Þrenn verkefni í gangi undanfarið, eitt kláraðist í gær. Datt svo í það hlutverk að leiða skipulagningu á Bollywood partýi (fyrir 200 manns) og undirbúning fyrir kakóhitting. Er og verður rosa gaman :o)

Lestur á skólabókunum, netheimildum og fimm öðrum áhugaverðum bókum er þarna einhvers staðar inn á milli.

August 23, 2006

Stony Point

Var að smella inn myndum frá agnarlitlum punkti á landakortinu, Stony Point.

Díselfnykur í nebbanum. Lestin skröltir eftir teinunum. Boink, þarna voru greinilega samskeyti. Ískrar líka skemmtilega mikið í lestinni eða einhverju. Sætin minna á sæti úr eldgamalli flugvél. Sætin eru doldið "þreytt". Skröltið, ískrið og þreyttu þreyttu sætin minnir rækilega á lestarferðir í Austur-Evrópu. Algjör andstæða þess sem ég hef annars upplifað hér í Ástralíu.

Hitinn í lestinni ansi góður. Hurð er þrykkt upp, þrekinn maður í peysu merktri lestarfyrirtækinu biðst afsökunar á hitanum. Einhver stilling er biluð, en já, afsakið hitann - afsakið hitann. Svo röltir hann upp eftir ganginum flautandi lagstúf. Skömmu síðar kemur sami maður aftur, flautandi sama lagstúfinn. Everyone has a validated ticket? Can you please validate your ticket, just to make the day a little bit easier for all of us. Svo brosir hann sínu blíðasta, röltir niður eftir ganginum og heldur áfram að flauta litla lagstúfinn. Er ekkert að skoða miðann hjá öllum farþegum eins og miðaskoðararnir gera í borginni, neehhh...þessi er voða líbó á því.

-Stony Point-

Áhugafiskarar mættir á bryggjuna. Missjón dagsins: reyna veiða fisk maður. Glittir í silfurlitt hreistur hjá einum fiskaranum. Æ, þessi er bara lítill, dugar varla í fiskisúpu handa einni manneskju. Einhver annar dró hálfan smokkfisk upp úr sjónum, hauslausan. Tveir félagar pakka saman - það veiðist ekkert í dag.

Flamingófugl baðar sig í sjónum. Í leirdrullunni í fjöruborðinu er annar flamingó í gönguferð.

Smelli síðustu myndunum, held svo heim á leið.

August 21, 2006

Brighton Beach, Williamstown og Stony Point

Brighton ströndin, Williamstown og smáhluti af Mornington skaganum (nánar tiltekið Stony Point) eru nýjasta myndefnið.

Og hvað er svona spes við þessa staði?

Á Brighton ströndinni eru þónokkrir litlir kofar málaðir í hinum ýmsustu litum. Doldið skemmtilegt.

Williamstown er dæmigerður sjávarbær. Rólegt, rólegt, rólegt. Mávar og sjávarlykt í nebbanum.

Mornington skaginn liggur út frá Melbourne. Fullt af litlum bæjum á skaganum. Sjávar/smábæjarfílingur. Myndir af því á leiðinni inn bráðlega.

Stutt útgáfa: Myndir frá Brighton Beach, Williamstown og smá ljósmyndagaman er að finna á myndasíðunni.

August 17, 2006

sykurbúðin

Það er búð í næstu götu, sem sérhæfir sig í brjóstsykursgerð.

Hægt að horfa á nammigottið búið til, alveg frá sykurbráðinni til þess að molarnir eru komnir í poka eða glerkrukku.

Bæta litar- og bragðefnum við sykurbráðina, hnoða, hnoða, hnoða og hnoða. Móta eitt lag af þessum lit, kæla, líma saman sykurfleti af sitt hvorum litnum, velta sykurkögglinum, hnoða, hita. Að minnsta kosti 10 kílógramma sívalningshlunkur. Teygja á massanum, svona já....gera þetta þunnt eins og sogrör. Kæla. Brjóta í mola.

Litríkir molar smjúga svo upp í munninn á fólkinu sem horfði agndofa á - mmm, piparmyntubragð.

August 16, 2006

djassaður Davis

keypti geisladisk um daginn. datt niður á hann í tónlistarbúðinni og hreinlega gat ekki annað en keypt hann. bara varð.

hver er svo gripurinn? Kind of blue með Miles Davis

algjört nammigott fyrir eyrun mín

August 14, 2006

manntal og tölfræði

Það var ekki einhver ein auglýsing í póstkassanum um daginn. Onei. Heill poki takk fyrir af pappír!

Forvitnin þvílík, hvað er þetta nú eiginlega??

Eftir smá skoðun komst botn í málið. Það er manntal í gangi þessa dagana. Ekki bara manntal heldur vill tölfræðiskrifstofan líka gjarnan fá alls konar aukaupplýsingar um einstaklinginn. Hér eru nokkur dæmi:
-hvernig fór einstaklingurinn í vinnu tiltekinn dag í ágústmánuði?
-hver er trú einstaklingsins?
-talar einstaklingurinn annað tungumál en ensku heima hjá sér?
-hversu mörg börn hefur hver kona a heimilinu eignast?
-eyddi einstaklingurinn einhverjum tíma sem sjálfboðaliði hjá samtökum eða hóp á síðustu tólf mánuðum?

Þessi síðasta spurning fannst mér ansi athyglisverð og það af tvennu. Ég hef verið sjálfboðaliði hér og það að vera sjálfboðaliði virðist vera nokkuð ríkt í samfélaginu. Af hverju vill fólk gerast sjálfboðaliði? Margar ástæður fyrir því, td. að gefa til baka til samfélagsins, prófa eitthvað nýtt, taka þátt í þörfum verkefnum sem annars gætu ekki verið framkvæmd. Árið 2000, voru sjálfboðaliðar eldri en 18 ára 72 klukkustundir á ári í sjálfboðavinnu að meðaltali. Nokkuð gott.

August 10, 2006

tjáningarstíll í ágreiningi

Hvernig bregstu við þegar þú lendir í ágreiningi?

Líklegast bregðumst við flest misjafnlega við. Fer allt eftir því hvers eðlis deilan er, spennunni/álaginu sem deilan felur í sér, hver mótaðilinn er og hvort við þekkjum viðbrögð mótaðilans í þessum kringumstæðum. Menningarlegur bakgrunnur getur einnig spilað inn í.

Almennt séð virðist fólk hafa tilhneigingu til að:

  • tala óbeint um ágreininginn (vonast til að mótaðilinn skilji það sem þú segir/lesi milli línanna) og halda tilfinningum utan við ágreininginn (leitast við að vera rólegur)
  • koma beint að kjarna ágreiningsins og halda tilfinningum utan við spilið
  • tala óbeint um ágreininginn og vera tilfinningasamur (hækka róminn/baða út höndum/benda)
  • koma beint að kjarna ágreiningsins og vera tilfinningasamur
Enginn einn tjáningarstíll er réttur eða rangur, hafa allir sína kosti og galla.

Fólk með mismunandi tjáningarstíl getur átt erfitt með að skilja hvort annað, getur auðveldlega misskilið hvort annað og valtað yfir hvort annað.
-liggur líklegast ljóst fyrir-
Og hvað er hægt að gera í slíku dæmi?
-reyna átta sig á hvað það er við hegðun mótaðilans sem lætur mig telja að hann sé td þrjóskur/ergjandi/pirrandi/óframfærinn/feiminn og leitast við að skilja hvað viðkomandi er að reyna segja-


Einn flokkur af tjáningu er venja í einu landi/menningarheim (almennt séð) á meðan það telst argasti dónaskapur í öðru landi/menningarheim.
-oft er þessi munur ekki ljós, og getur því valdið misskilning, vanlíðan og enn meiri vandræðum en fyrir voru...-
Smá dæmi: "Ég heyri alltaf í börnunum þínum spila á píanóið þegar ég kem heim úr vinnunni, þau eru orðin mun betri en þau voru áður." Í menningarheim sem talar óbeint um ágreininginn og heldur tilfinningum fjarri málinu, gæti þetta verið skilið sem "það pirrar mig afskaplega mikið að heyra píanóglamrið í krökkunum þínum þegar ég kem heim úr vinnunni, segðu börnunum þínum að hætta þessu".
-ef seinni setningin hefði verið notuð í þessum menningarheim er hún nokkuð líkleg til að setja allt á annan endann og gera deiluna enn verri-

Þetta var lærdómur dagsins, í hnotskurn.

August 8, 2006

leiðtogavika

Þessa vikuna er leiðtogavika í skólanum, skipulögð af SLP (student leadership program). Leiðtogavikan samanstendur af fyrirlestrum og workshops. Viðfangsefnin eru fjölbreytt; tengslanet, samskiptaleyndarmál fyrir framúrskarandi leiðtoga, menningarárekstrar og úrlausn þeirra og síðast en ekki síst, hvernig er hægt að veita liðinu sínu innblástur og hvatningu. Held þetta verði athyglisverð vika :o)
Og af hverju held ég þetta sé athyglisvert? Nú, skilningur á þessum málefnum getur komið sér mjög vel í hópvinnunni sem framundan er í náminu og auðvitað líka á öðrum sviðum lífsins...

Ég hlakka til, verður gaman að heyra í frábærum fyrirlesurum tala um athyglisverð efni og spjalla við fólk yfir glasi af appelsínusafa. Jájájá... :o)

August 3, 2006

tengslin

Reykskynjarar, reiknivélar, pappírstætarar, pennar, bangsar og uppskriftabækur.
Hvað skildu þessir hlutir eiga sameiginlegt?

*Fyrstu þrír gætu þurft rafmagn til að virka við hefðbundna notkun

*Allt nema bangsinn gæti verið hart

*Gæti verið selt í ritfangaverslun

*Finnst líklegast á nokkuð mörgum heimilum, nema kannski pappírstætarinn

*Pennar og bangsar gætu kannski talist til barnaleikfanga, það myndu reykskynjarinn og pappírstætarinn líklegast seint gera

Og hvað meir?

Pósthúsið. Já, auðvitað, pósthúsið maður! Þvílíka vöruúrvalið á sumum pósthúsunum í þessari borg, takmörkin eru sko ekki sett við frímerki, umbúðir og umslög. Onei. En ég sé bara ekki alveg tengslin á milli td reykskynjara í lausasölu, bangsa og póstþjónustu....hvað segir þú?

August 1, 2006

toffee eða caramel?

Hver er munurinn á toffee og caramel?

Lenti í smá veseni, því hugurinn minn skilur bæði orðin sem bara karamellu.

Þessi heilabrot minntu mig á hvað Karamellan er hæfileikarík. Getur dregið fyllingar úr tönnum á næstum því nó tæm.

Einhver stelpa (ekki ég! hehe...) var einn jóladaginn hjá afa sínum og ömmu. Ákvað að smella einni karmullu í munninn og tyggja smá. Og hvað gerðist? Angistarsvipur, neyðarsímtal til tannsa. Tannsi í fínustu fötunum, hann var á leiðinni í jólamatarboð en ákvað að aðstoða skvísuna. Mikið rosalega var stelpan þakklát.

Hvort finnst þér betra, mjúk eða hörð karamella (eða toffee)?
-endilega smelltu þínu áliti í kommentin
mortgage brokers
mortgage brokers Counter