April 27, 2008

Anzac Day í 95 ár

Vaknaði við taktfastan trommuslátt fyrir utan gluggann.
Þetta var eldsnemma á föstudaginn, fyrir sólarupprás. Hrökk upp við lætin og var smá hrædd; hvað gengur eiginlega á?!
Örstuttu síðar var hugurinn búinn að ná þessu

- hermenn að marséra um götur Melbourne við trommuslátt og sekkjapípuleik –

til að minnast fallinna hermanna og sýna þakklæti þeim sem barist hafa í stríði fyrir landið sitt, Ástralíu. Þetta var væn fylking af hermönnum, á að giska 40 manns og tveir lögreglubílar keyrðu á eftir. Ekki hægt að lýsa hve flott þetta var svona í morgunsárið; hvílík virðing.

Aussie brekkie í tilefni dagsins; egg og beikon með bökuðum baunum. Svo skundað út til að taka þátt í deginum.

Sex herflugvélar flugu yfir miðborgina. Sáum skrúðgöngu með 15 þúsund fyrrverandi hermönnum og aðstandendum þeirra, með tilheyrandi trommuslætti og sekkjapípuleik. Sumir kappanna voru komnir nokkuð til ára sinna og með heilu borðana af orðum; vitnisburður um það sem þessir menn hafa gert fyrir landið sitt. Inn á milli voru heilu raðirnar af gömlum bílum og herbílar með heldri hermönnum innanborðs. Lögreglumenn stóðu vaktina við skrúðgönguna en höfðu engar byssur, kylfur eða neitt annað eins og þeir yfirleitt hafa – stóðu bara heiðursvörð. Litlir krakkar voru í skrúðgöngunni og stolt báru þau orður afa síns eða langafa, til að halda minningunni á lofti. Ansi sérstakt andrúmsloft við skrúðgönguna; þakklæti, rólegheit og virðing.


Skrúðgangan endaði hjá minnisvarða um fallna hermenn. Á þessum sama stað var minningarathöfn í dögun þar sem 35 þúsund manns minntust þeirra föllnu og þar féllu víst mörg tár, tilfinningarík stund á gríðarlega fallegum stað. Við þessa byggingu logar eilífur eldur til að halda minningu þeirra föllnu á lofti. Að heyra rólega tóna í einu trompeti, á svona flottum stað, þar sem lögreglumenn og hermenn standa heiðursvörð, með öllum þessum fyrrverandi hermönnum og aðstandendum þeirra, er magnað.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

mortgage brokers
mortgage brokers Counter