March 27, 2007

breyttir tímar

Það eru svo sannarlega breyttir tímar í Melbourne, klukkunni var nefnilega breytt a sunnudaginn. Þannig núna er Melbourne 10 klukkustundum á undan Íslandi.

Skólalífið gengur annars sinn vanagang og það er mjög gaman. Við erum þrjú saman í liði, búin að skrifa smá ritgerð og smella saman fyrirlestri. Afhendum ritgerðina og flytjum fyrirlesturinn í dag. Ákváðum að gera þennan fyrirlestur smá öðruvísi, hluti af því er að við verðum öll í svipuðum fötum (gallabuxur og svartur efrihluti). Teljum að þetta atriði endurspegli sterka liðsheild og samheldni sem hefur vissulega haft áhrif á þróun mála í þessu verkefni.

Þetta lið hefur verið þroskandi og lærdómsríkt á marga vegu - og líka mjög skemmtilegt.

Hey, meðan ég man....prófaði að elda eitthvað sem ég hef aldrei kokkað áður.
Og það var.....
dadarammm.....

Smokkfiskur einn daginn og svo sverðfiskur!

Bæði tókst vonum framar. Leist reyndar ekkert á smokkfiskinn fyrst, var doldið slepjulegur. Spurning hvort hann ætti að fara í ruslið eða á pönnuna....en ákvað að smella ´onum á pönnuna ásamt fiskisósu, lauk og papriku. Varð bara alveg ágætt og smokkfiskurinn var ekkert seigur.
Sverðfiskurinn var líka mjög athyglisverður....eins og ljós útgáfa af túnfiski, já kjötkenndur. Ljúffengur sverðfiskur, steiktur á pönnu með smá sítrónupipar og líka mjög góður með smá teriyaki sósu. Meðlætið var kúskús með vorlauk, kúrbít, papriku og strengjabaunum og svo avocado-mauk. Nammi nammi namm :D

March 19, 2007

skólalíf

eeeeennnnn.....
iiiiiiiiiinnnnnn.....
eeeeennnnnnnn......

svona hljóð berast inn í íbúðina á laugardagsmorgni....hvað er eiginlega í gangi??
aha, Formúlan byrjuð!

Engin ástæða til að vera niðri í bæ að horfa á, þegar maður getur verið heima hjá sér að HLUSTA á, hehe :o) hver er líka munurinn, bílarnir keyra svoooo hratt að ég stórlega efast um að áhorfendur niðri í bæ sjái þá mikið.

hvað er svo að frétta?
B.......Æ........K..........U.........R
S.......K.........Ó...........L.........I
já, og verkefni

Rétt áðan var ég að vinna á skólatölvu og hún krassaði. Voða gaman. Krassaði með stæl og ákvað að henda öllum gögnunum mínum svona í leiðinni. Veit ekki hvort ég á að hlægja og brosa að eigin hrakförum eða hágráta. Vona bara það sé til afrit einhvers staðar í þessu risavaxna tölvukerfi...og að það afrit finnist mjög fljótlega.

Horfði annars á einn kennarann minn fá taugasjokk yfir tölvu í tíma. Mér fannst það smá fyndið, sjá hvernig kennarinn hegðaði sér fyrir framan heilan sal af nemendum - horfa á hana bókstaflega lemja tölvuna. En fann líka til með henni, þannig ég rétti henni hjálparhönd til að fá tæknina til að virka. Amms, matvælafræðingurinn kann nú sitthvað fyrir sér, ha ;o)
hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvernig öll skjölin mín geta birst aftur....

March 12, 2007

fólk

Var í smá hópvinnu áðan....skrifuðum niður styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnanir hvers einstaklings í hópnum og ræddum þessa þætti opinskátt. Í upphafi var helmingur hópsins smá tregur til að ræða þessa þætti, en eftirá vorum við sammála um að þetta hefði verið virkilega gott. Þetta losaði einhverja ósýnilega spennu og óvissu sem oft er í nýjum hóp. Núna liggja spilin á borðinu og við vitum ögn meira um meðlimi hópsins, hvernig við getum best unnið saman með því að nýta veikleika og styrkleika hvers annars.

Sumum reyndist erfitt að finna veikleika við sjálfan sig. Og skiljanlega, það getur verið erfitt að viðurkenna og horfast í augu við eigin veikleika, játa að maður sé ekki fullkominn. Önnur ástæða gæti verið að fólk hefur hreinlega ekki leitt hugann að því hvaða veikleika það hefur. Sumum reyndist erfitt að finna styrkleika við sjálfan sig, kannski af því þeir sjá sig í neikvæðu ljósi. Eða að viðkomandi hafði aldrei spáð í því í hverju hann sé góður. Tjahh, eða einhver enn önnur ástæða.

Málið er að við settumst niður, komum þessum þáttum niður á blað. Öflugt að kortleggja eiginleika hópsins og sjá þessa eiginleika á blaði - áttuðum okkur á því að við eigum margt sameiginlegt og erum líka ólík að ýmsu leyti. En saman, með því að spila inná veikleika og styrkleika, munum við ná að leysa verkefnið sem liggur fyrir, virkilega vel.

Hópurinn samanstendur af fjórum einstaklingum sem koma frá Íran, Kína, Víetnam og svo Íslandi. Húðin okkar er ekki eins á litinn, heldur ekki hárið og móðurtungumálin eru fjarskalega ólík. Vissulega er enskukunnáttan misjöfn og stundum finnum við ekki réttu orðin. En einhvern veginn náum við að skilja hvort annað, vinna saman og hlægja saman. Ég fagna fjölbreytileikanum í hópnum, fjölbreytileikinn bíður uppá að fá fram ólík sjónarhorn - það þroskar mig, hina aðilana í hópnum og víkkar sjóndeildarhringinn.

March 10, 2007

hægriflugur

Ekki hafði mér áður dottið í hug að flugur gerðu mun á hægri og vinstri.
Þessar flugur sem hafa komist í nálægð við minn kropp hafa allar verið hægrisinnaðar, að minnsta kosti hafa þær bara séð erindi til að narta í hægri hlið líkamans. Eða voru þær kannski vinstrisinnaðar, hægri hliðin mín hefur jú verið vinstra megin (séð frá flugunni sko) þegar þær komu fljúgandi. Hhmmm... :D

Annars líst mér mjög vel á þessa önn í skólanum. Hellingur að gera, skilaverkefni í hverri viku og líka smærri verkefni. Einsog áður er töluverð áhersla lögð á hópavinnu og ég hlakka til þess að kynnast tveimur hópum í viðbót :o)

Jæja, ætla fara snúa mér að skólabókunum....þessum x fjölda sem bíður þess að verða lesinn.

March 2, 2007

þegar heitt er í veðri....

....finnst mér rosa gott að borða sjávarréttasalat í kvöldmat :o)

Vil gjarnan deila þessu nammigotti með þér, þannig að hér er´edda

1 haus af því salati sem þér finnst vera best
nokkrir kræklingar
nokkrar risarækjur
lime safi
krydd eftir smekk (td koríander, hvítlaukur og engifer)
vatn

Skera salatið niður. Setja pínku pons af vatni í pott, ásamt kryddinu og limesafanum. Sjóða kræklinginn og risarækjuna þangað til tilbúið. Smella sjávardótinu yfir salatið, ásamt soðinu.

Rosa gott að hafa ristaðar furuhnetur oná salatinu eða stökkar ostastangir með.

~NJÓTTU~
mortgage brokers
mortgage brokers Counter