vinningslið
ég var ekki í hópíþrótt þegar ég var yngrikemur því kannski ekki á óvart, að ég upplifði það ekki að vera í vinningsliði í hópíþrótt(jamm, afleiðing fyrstu fullyrðingarinnar)hins vegar.....í dag, upplifði ég það að vera í vinningsliði. (reyndar ekki í fyrsta sinn) - og já, það var í skólanum. það er eitthvað magnað sem gerist þegar við þrjú vinnum saman....sköpunarmátturinn spanast upp, þorstinn eftir því að vita meira er óslökkvandiog við erum ákveðin í að gera betur en síðast. lokapunkturinn, að minnsta kosti í bili í þessum hóp okkar, var í dag. fyrirlestur.30 mínútum síðar, þegar við höfðum flutt fyrirlesturinn, svarað spurningum og fengið okkur sæti aftur, varð mér litið á félaga mína...þrír þumalputtar upp í loft, bros út að eyrum og geislandi augun-þrír stúdentar í sjöunda himni-frábær tilfinning....
morgunmatur
Einn morguninn, fyrir stuttu, var ég eitthvað svoooooo sofandi eftir 5 tíma nætursvefn (amm, ég veit, stutt)....að þessi þarna endalaust geispandi stúlka gat örugglega ekki með nokkru móti talist vera vakandi. Og hvað gerir maður í svona ástandi?Snickers og kaffi var valinn álitlegast morgunverðurinn. Og það vakti sko stúlkugreyið :DEkki skil ég samt hvernig mér tókst að borða þetta í morgunmat....verður hálfflökurt bara við tilhugsunina. Sem minnir mig á eina litla sögu....einu sinni var lítil stelpa sem vildi alveg endilega borða gúrkubita með smjöri í morgunverð (ekki skil ég af hverju, en það er annað mál....mörg ár síðan). Þessi líka svaðalega gúrku-smjörs-blanda fór eitthvað illa í mallakútinn, þannig að smá seinna endaði gúrku-smjörs-blandan hálfmelt á gólfinu....og amm, þarf líklega ekki að spyrja að því, af einhverjum ástæðum hefur mig ekki aftur langað í gúrkubita með smjöri í morgunverð :o)
haustdagur
það er haust í Melbourne....trén hafa dreift laufblöðunum sínum út um allar götur og þau bara liggja þarna. Það er haust í marga daga, ekki bara ca einn dag einsog á Íslandinu. Laufblaðahrúgur á gangstéttum, maður kemst ekki hjá því að vaða laufblöð á leiðinni heim. Það er eitthvað heillandi við þetta margra-daga-haust. Og þar sem ég er svo heilluð af haustinu, tók ég upp eitt af þessum milljón laufblöðum sem voru að hvíla sig á gangstéttinni. Kom því vel fyrir undir góðum stafla af skólabókum. Einn daginn fer þetta laufblað svo í ramma, undir gler og upp á vegg. Til að minna mig á fallega haustið í Melbourne. eða.....kannski er bara kominn vetur? Að minnsta kosti hefur ekki veitt af úlpu undanfarið og vettlingar hafa fengið að fljóta með. Er stundum skrambi kalt í þessari borg. Og á morgnana kemur ískaldur blástur inn um gluggann, sem er reyndar mjög frískandi. haustvetur - er það ekki bara? :D Dagurinn í dag, hálfdrungalegur eitthvað. Held að þessi gráu ský skýri það, kannski líka rigningin. Labbaði mér inn á kaffihús. Keypti uppáhaldskaffið og labbaði mér upp á efri hæðina. Þægileg tónlist á fóninum. Fór úr úlpunni og tyllti mér í stóran, mjúkan stól. Hef lært af reynslunni, að bíða í doldinn tíma.....því annars er kaffið alltof heitt. Á meðan kaffið var aðeins að kæla sig, varð mér litið út um gluggann; tré, með örfá laufblöð sem bærðust til í sunnangolunni. Lítil hús í viktorískum byggingarstíl og málningin aðeins farin að flagna af þeim. Skemmtileg andstæða við skýjakljúfana. Sporvagn sem rennur eftir teinunum sínum. Melbourne, borgin sem mér þykir svo undurvænt um. Og næsti sporvagn rennur hjá. Rennur áfram svipað og námið mitt; mastersgráða í höfn, að öllum líkindum, eftir örfáa daga. Kaffið búið að ná drykkjarhæfu hitastigi......ahhh....hvað kaffisopinn getur nú verið góður. Það er eitthvað svo mikil kyrrð og værð í loftinu. Kannski hefur djassinn hennar Holiday sem er á fóninum þessi áhrif, eða kannski er það bara haustið....það er að minnsta kosti einstaklega slakandi að tylla sér svona við gluggann og horfa út. Horfa á húsin, mannlífið, borgina. Rölti mér út í heillandi haustið. Taka-með kaffið kemur með á fundinn sem byrjar klukkan fjögur.
afi minn
Hann afi minn kvaddi á sunndaginn. Ég skil það vel að það hafi verið kominn tími á hvíld eftir 94 ár. Afi gerði góðan steiktan fisk og besta hrísgrjónagraut sem ég hef fengið. Afi sagði reyndar ekki hrísgrjónagrautur - hrísgrjónagrauturinn hans afa míns hét vellingur og var sá besti sem ég hef fengið. Ég man eftir afa mínum ein jólin, jólaplata á grammafóninum og hann tók nokkur létt dansispor á stofugólfinu - brosandi sínu innilega brosi á meðan og augun leiftrandi af ánægju. Þónokkrum sinnum var afi í tröppu, með málningarfötu og pensil í hönd. Hann var jú málari. Stundum var hann líka að bora eða negla nagla í vegg. Þegar hann varð eldri, varð pensillinn fínlegri og fallegustu málverk litu dagsins ljós. Ekki bara málverk, líka fegurstu hlutir úr leir. Það var svona smá bretti sem afi setti stundum út á altan. Þetta var til að litlu fuglarnir yrðu ekki svangir í vetrarkuldanum. Afi talaði voða lítið um starfið sem hann og amma áttu með þroskaheftu krökkunum. Ég held það hafi verið því það eru varla til orð til að lýsa slíkri upplifun eða slíkri góðvild.Lítil snót sat ósjaldan í fanginu hjá afa sínum og þau skáru saman út laufabrauð, jólaöl í stóru glasi og svo lítið glas með malti og appelsíni. Kirkja, bóndabær og stafurinn minn og stafurinn hans litu dagsins ljós. En afi, voru eitt eða tvö lauf í krossinum á kirkjunni?Man líka eftir lítilli snót, kannski fimm ára, sem hélt í traustu og sterklegu höndina hans afa síns og saman röltu þau út í bakarí að kaupa bakkelsi. Einhvern veginn fór það oft þannig, eftir gönguferðirnar okkar í bakaríið, að það birtist snúður með súkkulaði á eldhúsborðinu. Kókómjólk í fernu eða glasi og snúður með súkkulaði - litla stúlkan alsæl hjá afa sínum og ömmu.~takk~

mortgage brokers Counter