May 7, 2007

afi minn

Hann afi minn kvaddi á sunndaginn.
Ég skil það vel að það hafi verið kominn tími á hvíld eftir 94 ár.

Afi gerði góðan steiktan fisk og besta hrísgrjónagraut sem ég hef fengið. Afi sagði reyndar ekki hrísgrjónagrautur - hrísgrjónagrauturinn hans afa míns hét vellingur og var sá besti sem ég hef fengið.

Ég man eftir afa mínum ein jólin, jólaplata á grammafóninum og hann tók nokkur létt dansispor á stofugólfinu - brosandi sínu innilega brosi á meðan og augun leiftrandi af ánægju.

Þónokkrum sinnum var afi í tröppu, með málningarfötu og pensil í hönd. Hann var jú málari. Stundum var hann líka að bora eða negla nagla í vegg. Þegar hann varð eldri, varð pensillinn fínlegri og fallegustu málverk litu dagsins ljós. Ekki bara málverk, líka fegurstu hlutir úr leir.

Það var svona smá bretti sem afi setti stundum út á altan. Þetta var til að litlu fuglarnir yrðu ekki svangir í vetrarkuldanum.

Afi talaði voða lítið um starfið sem hann og amma áttu með þroskaheftu krökkunum. Ég held það hafi verið því það eru varla til orð til að lýsa slíkri upplifun eða slíkri góðvild.

Lítil snót sat ósjaldan í fanginu hjá afa sínum og þau skáru saman út laufabrauð, jólaöl í stóru glasi og svo lítið glas með malti og appelsíni. Kirkja, bóndabær og stafurinn minn og stafurinn hans litu dagsins ljós. En afi, voru eitt eða tvö lauf í krossinum á kirkjunni?

Man líka eftir lítilli snót, kannski fimm ára, sem hélt í traustu og sterklegu höndina hans afa síns og saman röltu þau út í bakarí að kaupa bakkelsi. Einhvern veginn fór það oft þannig, eftir gönguferðirnar okkar í bakaríið, að það birtist snúður með súkkulaði á eldhúsborðinu. Kókómjólk í fernu eða glasi og snúður með súkkulaði - litla stúlkan alsæl hjá afa sínum og ömmu.

~takk~

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hæ elskan, ég samhryggist þér innilega, ég hitti hann afa þinn einusinni en hef heyrt þeim mun meira talað um hann og ekki er vafi á að þar fór góður maður um :*

Þú skrifað alltaf svo fallega og þetta tel ég hafa verið góð skrif í sorginni.
Það er erfitt að vera svo fjarri þegar ástvinur kveður en mundu bara þær fallegu minningar sem þú átt og þá getur þetta ekki annað en orðið léttbærara.
Knús
H

8:34 AM  
Anonymous Anonymous said...

Knus Snúllan mín, blessud sé minning hans afa thins. samúdarkvedjur Heiddís.

2:00 PM  
Blogger Katrin said...

~takki takk~

6:56 AM  

Post a Comment

<< Home

mortgage brokers
mortgage brokers Counter